Copy
Fréttabréf Bandalags háskólamanna 3. tölublað 2. júní 2015
Skoða póstinn í vafra

Fréttabréf BHM vegna verkfalla

Nú stendur yfir 9. vika verkfallsaðgerða 17 aðildarfélaga BHM sem berjast fyrir bættum kjörum sinna félagsmanna. Tilgangur þessa fréttabréfs er að koma á framfæri upplýsingum til félagsmanna, bæði þeirra sem hafa gert verkfall og þeirra sem eru við störf. Fréttabréfið verður sent út með óreglulegum hætti eftir því sem málum vindur fram.

Hvað er ríkið að bjóða þér?


Síðastliðinn föstudag lagði samninganefnd ríkisins fram tilboð sem sem fól í sér um 4,1% launahækkun á ári og lagði jafnframt til að samið yrði til ársins 2019. Það segir sig sjálft að þetta tilboð mætir ekki kröfum BHM.

Ef við hækkuðum núgildandi launatöflu í samræmi við tilboð ríkisins frá því á föstudag yrði hækkun á öllu samningstímabilinu, út árið 2018, samtals 17,5%. Það þýðir að lágmarkslaun háskólamanna yrðu tæp 317 þúsund. Ávinningurinn af því að ljúka háskólaprófi umfram það að stunda ekkert nám yrði því að lágmarki innan við 6%. Aðrar útfærslur þessa tilboðs í þá veru að hækka lágmarkið yrðu á kostnað framhaldsnáms og ábyrgðar í starfi því heildarkostnaðurinn má ekki breytast.Tilboð ríkisins lýsir vilja- og metnaðarleysi í kjaraviðræðunum. Í því er menntun ekki metin til launa og því  hafnaði samninganefnd BHM tilboðinu. Í framhaldinu ítrekaði BHM meginkröfur félaganna sem varð til þess að ríkið sleit viðræðum.

Það var ljóst frá upphafi samningavinnunnar að áherslur í kjarasamningum á almennum markaði og kjarasamningum hjá ríkinu yrðu með ólíkum hætti, þar sem hækkun lágmarkslauna var megin áherslan í samningaviðræðum á almenna markaðnum á meðan réttmæt umbun fyrir menntun og faglega ábyrgð var megin áherslan í samningaviðræðum háskólamanna við ríkið. Kjarasamningar á almenna markaðnum gátu því ekki orðið fyrirmynd að samningum við háskólamenn hjá ríkinu.

Kröfur BHM í kjaraviðræðum við ríki ganga í meginatriðum út á að menntun verði metin til launa annars vegar og hins vegar að sett verði aukið fjármagn í stofnanasamningakerfið sem félagsmenn BHM sem starfa hjá ríkinu búa við.

Skilaboðin með þessu tilboði voru skýr. Hvorki var áhugi á að meta menntun til launa né laga það launakerfi sem starfsmenn þess búa við og meta störf þeirra. Með þeim launum sem boðið er upp á getur ríkið  ekki staðist samkeppni um hæft starfsfólk við aðra hluta vinnumarkaðarins. 

BHM hefur ítrekað bent á þá staðreynd að fjöldi ríkisstarfsmanna er að komast á starfslokaaldur og er starfsmannavelta mikil í yngri hópunum. Mikilvægt sé að laga launakerfi háskólamenntaðra starfsmanna ríkisins til framtíðar svo það haldi í og laði til sín hæft starfsfólk. 

Neyðarástand blasir við og fréttir af uppsögnum farnar að berast. Hvernig ætla stofnanir ríkisins að halda uppi þeirri þjónustu sem nauðsynleg er ef enginn fæst til að sinna störfunum? Þá verður ekki hægt að beita undanþáguheimildum til að afstýra neyðarástandi.

Ríkissáttasemjari boðaði samninganefnd BHM og samninganefnd ríkisins á fund kl.14.00 í dag. Við munum setja inn fréttir af þeim fundi á bhm.is og Facebooksíðu Bandalags háskólamanna um leið og tíðindi berast.

Tveimur málum stefnt fyrir Félagsdóm

BHM hefur stefnt íslenska ríkinu fyrir Félagsdómi í tveimur málum vegna launagreiðslna félagsmanna í verkfallsaðgerðum.

Í öðru málinu gerir BHM þá kröfu, fyrir hönd félagsmanns í Félagi íslenskra náttúrufræðinga, að viðkomandi aðili fái greitt fyrir útkall en ekki einungis fyrir tímavinnu eins og ríkið hefur hingað til greitt.

Í hinu málinu er um að ræða ljósmóður sem fékk launafrádrátt langt umfram það sem eðlilegt má teljast miðað við vinnuframlag. Viðkomandi ljósmóðir hafði starfað á undanþágum fram til 15. apríl, sem er síðasti dagur í launatímabili og átti jafnframt eftir að standa nokkrar vaktir samkvæmt vaktskrá það sem eftir lifði apríl mánaðar. Er laun voru greidd út kom í ljós að þrátt fyrir að vinnuframlag ljósmóðurinnar hafi verið ríflega 93% miðað við vaktskrá var launafrádráttur umtalsverður og í engu samræmi við raunverulegt vinnuframlag.

Ríkið fékk frest til föstudagsins 5. júní til að skila greinargerðum í málunum. Búast má við að málflutningur fari fram í næstu viku og dómsuppkvaðning verði í vikunni þar á eftir.
Verkfallssjóður BHM

Sjóðurinn stendur vel og mun áfram sjá um að þeir félagsmenn sem eru í verkfalli haldi sínum tekjum eins og ef þeir væru við störf. Að sjóðnum standa þau 17 stéttarfélög sem standa sameiginlega að verkfallsaðgerðum og greiða félögin þann kostnað sem af verkfallinu hlýst.

Sjóðurinn minnir félagsmenn á að hengja launaseðla og skjámynd úr vinnustund við styrkumsókn svo hægt sé að afgreiða styrki hratt og örugglega.


Úthlutunarreglur sjóðsins má lesa hérna.
Verkfall hafið hjá Fjársýslu ríkisins

Ótímabundið verkfall Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins hjá Fjársýslu ríkisins hófst á miðnætti þegar 28 starfsmenn Fjársýslunnar fóru í ótímabundið verkfall.
BHM á Facebook
BHM á Facebook
Heimasíða BHM
Heimasíða BHM
Bandalag háskólamanna
Borgartúni 6
105 Reykjavík

bhm@bhm.is