Copy
Fréttabréf Bandalags háskólamanna 4. tölublað 8. júní 2015
Skoða póstinn í vafra

Fréttabréf BHM vegna verkfalla

Nú er að hefjast 10. vika verkfallsaðgerða 17 aðildarfélaga BHM sem berjast fyrir bættum kjörum sinna félagsmanna. Tilgangur þessa fréttabréfs er að koma á framfæri upplýsingum til félagsmanna, bæði þeirra sem hafa gert verkfall og þeirra sem eru við störf. Fréttabréfið verður sent út með óreglulegum hætti eftir því sem málum vindur fram.

Kærar þakkir fyrir þátttökuna og samstöðuna! 


Gríðarlega góð þátttaka var í þöglum mótmælum sem BHM og FÍH stóðu fyrir við Stjórnarráðið sl. föstudag. Alls mættu um 1000 manns og var samstaðan í hópnum einstök. Mótmælin vöktu rækilega athygli á alvarlegri stöðu kjaradeilunnar og minntu ríkisstjórnina á þá óþægilegu staðreynd að ekkert hefur þokast við samningaborðið.
 

Sáttanefnd

Seinna sama dag stakk forsætisráðherra upp á því að skipuð yrði sáttanefnd sem tæki yfir hlutverk Ríkissáttasemjara og reyndi að finna lausn sem báðir aðilar gætu við unað. Til að gera langa sögu stutta þá komst viðræðunefnd BHM fljótt að þeirri niðurstöðu að skipun slíkrar sáttanefndar væri ekki til þess fallin að flýta fyrir lausn deilunnar. Á fundi með félags- og húsnæðismálaráðherra í morgun varð það svo sameiginleg niðurstaða stjórnvalda, BHM og FÍH að sáttanefnd yrði ekki stofnuð.
 

Tíunda vika verkfallsaðgerða

Í dag hefst 10. vika verkfalla. Liðnar vikur hafa einkennst af því sem kalla mætti sýndarviðræður eins og formaður samninganefndar BHM, Páll Halldórsson, hefur bent á. Á þessum tíma hefur samninganefnd BHM ítrekað lagt fram fjölbreyttar og vel út færðar tillögur til lausnar deilunni. Ef raunverulegur samningsvilji væri fyrir hendi hjá ríkinu væri hægt að ganga frá kjarasamningum á skömmum tíma. Til þess þarf ríkisvaldið hins vegar að viðurkenna sjálfstæðan samningsrétt háskólamenntaðra starfsmanna sinna og horfast í augu við þá alvarlegu stöðu sem uppi er í samfélaginu.

- Þórunn Sveinbjarnardóttir formaður BHM
BHM á Facebook
BHM á Facebook
Heimasíða BHM
Heimasíða BHM
Bandalag háskólamanna
Borgartúni 6
105 Reykjavík

bhm@bhm.is