Copy
Fréttabréf Bandalags háskólamanna 1. tölublað 12. maí 2015
Skoða póstinn í vafra

Fréttabréf BHM vegna verkfalla

Nú stendur yfir 6. vika verkfallsaðgerða 17 aðildarfélaga BHM sem berjast fyrir bættum kjörum sinna félagsmanna. Tilgangur þessa fréttabréfs er að koma á framfæri upplýsingum til félagsmanna, bæði þeirra sem hafa gert verkfall og þeirra sem eru við störf. Fréttabréfið verður sent út með óreglulegum hætti eftir því sem málum vindur fram.

Staðreyndir um undanþágunefnd geislafræðinga

 
Í umfjöllun fjölmiðla síðustu daga hefur gætt ónákvæmni í umræðu um undanþágunefnd geislafræðinga. Hefur jafnvel komið fram að verulegum fjölda undanþágubeiðna á Landspítalanum (LSH) hafi verið hafnað. Það er ekki nákvæmt því nokkur fjöldi undanþágubeiðna var ónákvæmur og uppfyllti ekki skilyrði en undanþága var veitt þegar umsóknir höfðu verið lagfærðar.

Staðreyndirnar eru þessar:

Á virkum dögum milli kl. 8-16 er um 35% mönnun geislafræðinga á LSH. Á öðrum tímum sólarhrings og um helgar er full mönnun (100%).

Við vaktaskipti kl. 16. þann 11. maí höfðu 146 undanþágubeiðnir verið samþykktar á LSH. Af þessum undanþágum hafði einhverjum áður verið hafnað vegna útfærslu undanþágubeiðna en þær síðar samþykktar þegar undanþágubeiðnir höfðu verið útfærðar á annan hátt.

Þá hafði 62 beiðnum um undanþágu vegna tölvusneiðamynda og segulómana verið beint í annan farveg, m.a. með því að rannsóknir yrðu unnar á kvöldin og um helgar þegar full mönnun er á röntgendeildum. Voru þessar rannsóknir því unnar samkvæmt þessu verklagi.

Í heild hafði 5 undanþágubeiðnum verið hafnað. Þar af var fjórum þeirra hafnað á grundvelli þess að þegar sótt var um undanþágu voru á sama tíma starfandi, á undanþágu, geislafræðingar með sérfræðiþekkingu til að vinna viðkomandi rannsóknir.

Geislafræðingar hafa ítrekað fundað með stjórnendum LSH til að finna lausnir þegar þess hefur verið þörf. Telja geislafræðingar sig hafa sýnt mikinn samstarfsvilja og vilja til að leysa öll þau mál sem koma inn á borð undanþágunefndarinnar. Jafnframt lýsa geislafræðingar yfir vilja til að halda áfram þessu samstarfi þar til verkföllum lýkur.

Launagreiðslur til félagsmanna aðildarfélaga BHM

Borið hefur á misbresti á launagreiðslum til félagsmanna í yfirstandandi verkföllum. Það eru sérstaklega þrjú tilvik sem BHM hefur gert athugasemdir við.

1. Vaktavinnufólk sem hafði ekki vinnuskyldu milli kl. 12-16 þann 9. apríl, þegar aðildarfélög BHM gerðu verkfall í hálfan dag, fékk launafrádrátt vegna þessa hálfa dags. Með öðrum orðum þá voru dregnar af þessum félagsmönnum 4 klst. sem viðkomandi höfðu sannarlega unnið.

2. Vaktavinnufólk hefur fengið launafrádrátt vegna í samræmi við úrelta reiknireglu fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem kveður á um að mánaðarlaun séu reiknuð sem dagvinnulaun sem eru margfölduð með fjölda almanaksdaga annarra en laugardaga og sunnudaga. Var þetta gert þrátt fyrir að vaktavinnufólk vinni vaktir jafnt um helgar sem virka daga skv. vaktaplani sem er ákveðið fram í tímann. 
Þetta þýðir að vaktavinnufólk, eins og ljósmæður sættu 60% frádrætti launa en með réttu hefði hlutfallið átt að vera um 45%.

3. Samkvæmt fyrirmælum fjármála- og efnahagsráðuneytisins hefur þeim starfsmönnum sem kallaðir eru út á grundvelli undanþágubeiðni verið greitt skv. ákvæðum kjarasamninga um tímakaupsfólk. Það þýðir að starfsmaður fær greidd dagvinnulaun fyrir undanþágustörf sín. Samninganefnd ríkisins breytti afstöðu sinni og féllst á að greitt yrði yfirvinnukaup fyrir undanþágustörf utan dagvinnutíma! BHM lítur hins vegar svo á að um sé að ræða útkall viðkomandi starfsfólks sem skuli greiða í samræmi við ákvæði kjarasamninga.

Vegna þessara mála sendi BHM fjármála- og efnahagsráðuneytinu minnisblað þar sem þess var krafist að ríkið leiðrétti án tafar þessa misbresti á launagreiðslum ella yrði leitað fulltingis dómstóla. 

Bréfið til fjármála- og efnahagsráðuneytisins má lesa í heild sinni hérna.

Verkfallssjóður Bandalagsins


BHM setti á fót verkfallssjóð til að standa undir styrkgreiðslum til félagsmanna sem lagt hafa niður störf og þannig orðið fyrir tekjutapi. Nú þegar hafa á fimmta hundrað félagsmenn fengið styrki úr sjóðnum.

Fyrirkomulag styrkgreiðslna er þannig að félagsmenn sem fá fyrirfram greidd laun fá að jafnaði greiddan styrk vikulega fyrir dagvinnu en styrkur vegna yfirvinnu er greiddur mánaðarlega. 
Þeir sem fá laun greidd eftir á fá styrk úr sjóðnum mánaðarlega, um mánaðarmót. 

Eins og staða styrkgreiðslna er í dag hafa allir umsækjendur, sem uppfylla skilyrði fyrir styrk, fengið greitt. Enn eiga nokkir umsækjendur eftir að skila inn nýjasta launaseðli og/eða afriti úr „Vinnustund“ og hafa því ekki fengið styrki í maí mánuði. Sjóðurinn hvetur þessa aðila til að skila inn viðkomandi gögnum til að hægt sé að afgreiða styrki.

Nánar um sjóðinn má lesa hérna.

Fræðslu- og upplýsingafundur fyrir félagsmenn í verkfallsaðgerðum

Fræðslu- og upplýsingafundur fyrir félagsmenn í verkfallsaðgerðum verður haldinn á morgun, miðvikudaginn 13. maí kl. 10.30,  í Borgartúni 6, 4 hæð

Dagskrá fundarins:
kl. 10.30  Páll Halldórsson, formaður samningarnefndar BHM mun kynna stöðuna í kjaraviðræðum.
kL. 11.15 mun Hafrún Kristjánsdóttir sálfræðingur endurtaka fyrirlestur um liðsheild og streitu

Skráning á fundinn hér.

BHM á Facebook
BHM á Facebook
Heimasíða BHM
Heimasíða BHM
Bandalag háskólamanna
Borgartúni 6
105 Reykjavík

bhm@bhm.is